Nemendur á öðru ári hófu seinni hálfleik í MBA-náminu föstudaginn 13. ágúst.
Haustönnin hófst með námskeiðinu Markaðir og vörumerki hjá Friðriki Larsen, þar sem nemendur fengu einnig góða gestafyrirlesara.
Edda Hermannsdóttir, markaðs-og samskiptastjóri Íslandsbanka kom og fjallaði um markaðsstarf í nýjum veruleika. Eðli markaðs- og auglýsingastarfs hefur breyst mikið og fyrirtæki eru í meira magni að stýra markaðsstarfi sínu innanhúss. Þau þekkja sitt vörumerki mjög vel en ráða svo minni og sérhæfðari aðila sem viðbót. Áður var það gjarnan þannig að fyrirtæki voru með allt sitt auglýsinga- og markaðsefni í höndunum á einni risastórri auglýsingarstofu, sem var að auki mjög stór kostnaðarliður. Auglýsingastofan þekkti þá vörumerkið jafnvel betur en eigendur þess.
Þá kom Ævar Österby, meðeigandi á hárgreiðslustofunni Slippnum og fjallaði um það hvað rakara- og hárgreiðslustofur eru að selja. Hvers vegna kemur fólk í klippingu, eða rakstur á sama staðinn aftur og aftur? Er það til að fá bestu klippingu bæjarins eða er það einhver persónuleg tenging við klipparann/rakarann? Ævar leggur upp úr því að rækta líka vörumerkið Ævar en ekki bara Slippinn. Hann leyfir sér að vera persónulegur og einlægur sem skilar sér í ánægðum viðskiptavinum sem koma aftur og aftur.
Kraftmikil byrjun á vetrinum hjá öðru ári og vísir að því sem koma skal.