MBA-nemendur áttu sitt annað stefnumót við atvinnulífið í dag á Litla Torgi, en í stefnumótaröðinni er sjónum beint sérstaklega að fjórðu iðnbyltingunni og birtingarmyndum hennar í fyrirtækjum og stofnunum.
Í dag var það Ragnheiður H. Magnúsdóttir sem sótti nemendur heim og fjallaði um stafræna umbreytingu. Ragnheiður er vélaverkfræðingur og formaður tækninefndar vísinda og tækniráðs og hennar hlutverk er að undirbúa stefnu ríkstjórnarinnar er lýtur að tækniþróun og nýsköpun.
Ragnheiður talaði um helstu samfélagslegu áskoranir sem mæta okkur næstu áratugina og nefndi þar sérstaklega umhverfismál og sjálfbærni, heilsu og vellíðan og svo líf og störf í heimi breytinga. Hún ræddi einnig um mikilvægi þess að fyrirtæki jafnt sem stjórnvöld ýti undir nýsköpun með því að skapa andrúmsloft þar sem fólk þorir að koma með hugmyndir. Þá lagði hún áherslu á að tilgangur stafrænna ferla og hugbúnaðar er að gera störfin einfaldari og leysa vandamál. Að lokum nefndi hún dæmi um tvö íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem njóta mikillrar velgengni, Controlant og Nox Medical, en þessi fyrirtæki byggja velgengni sína á stafrænum lausnum sem mæta þörfum viðskiptavina.
Við þökkum Ragnheiði kærlega fyrir áhugaverðan fyrirlestur.